Niðurstöður úr fyrstu nemendakönnun Skólapúlsins á þessu skólaári hafa nú verið birtar. Nemendakönnunin snýr að þremur þáttum; virkni nemenda í skólanum, líðan og heilsu og skóla- og bekkjaranda.
Í virkni nemenda í skólanum eru kannaðir liðir á borð við ánægju af ýmsum námsgreinum, þrautseigju í námi og trú á eigin getu. Skemmst er frá því að segja að dregið hefur úr ánægju af lestri og þarf að bregðast við því. Hins vegar koma aðrir þættir betur út nú en áður og erum við í öllum tilfellum yfir landsmeðaltali. Við erum marktækt yfir í áhuga á stærðfræði.
Í þættinum Líðan og heilsa er spurt um sjálfsálit, vellíðan, einelti, tíðni hreyfingar og hollt mataræði. Við erum þar yfir landsmeðaltali í öllum þáttum nema stjórn á eigin lífi. Ánægjulegt er að skólinn mælist undir landsmeðaltali er kemur að einelti og þar viljum við vera.
Sjálfsálit og vellíðan nemenda í skólanum kemur mjög vel út.
Skóli – og bekkjarandi er sá þáttur sem mælist hæst hjá okkur. Hér eru skoðaðir þættir eins og samsömun við nemendahópinn, samband nemenda við kennara, agi í tímum og virk þátttaka í tímum. Í þremur af þessum fimm þáttum erum við marktækt yfir landsmeðaltali. Sem dæmi má nefna að samband nemenda og kennara mælist einna best hjá okkur á landsvísu. Það sama má segja um virka þátttöku nemenda í tímum.