Skóladagurinn í Borgarbyggð tókst með miklum ágætum. Ýmislegt var í boði af hálfu grunnskólans; m.a. má nefna:
Sæbjörg Kristmannsdóttir fjallaði um Uppeldi til ábyrgðar og henni til fulltingis voru nokkrir nemendur. Sagt var frá helstu verkfærum uppbyggingarstefnunnar.
Elín Matthildur Kristinsdóttir sagði frá Búbblunni og leiddi gesti í sannleikann um hugmyndafræðina að baki þessa úrræðis til eflingar sjálfsmyndar og betri líðanar.
Nemendur úr 7. bekk lásu frumsamin ljóð úr ljóðabókinni Árstíðirnar fjórar sem gefin var út síðastliðið haust. Halldóra Rósa Björnsdóttir stýrði flutningi en hún hafði umsjón með verkefninu frá upphafi.
Samstarfsverkefni með Bifröst var kynnt. Kristrún Óskarsdóttir, Andrea Jónsdóttir og Bryndís Hafliðadóttir greindu frá viðskiptahugmynd sem þær hafa unnið að. Hugmynd þeirra miðar að því að búa til vefsíðu þar sem krökkum gefst tækifæri til að viðra skoðanir sínar um stjórnmál og ná jafnvel tengslum við stjórnmálamenn. Stelpurnar kynntu þróun verkefnisins frá hugmynd til afurðar. Þær hafa gert nafnlausar kannanir í bekkjum og á facebook og eru í sambandi við aðila varðandi vefsíðugerð og hugsanlegt app. Verkefnið hlaut sérstaka viðurkenningu og á einni myndinni má sjá stelpurnar með verðlaunagrip sem Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst veitti þeim.
Teikningar af nýbyggingu grunnskólans voru til sýnis og sýndar voru glærur sem gáfu mynd af endanlegu útliti hennar. Emma Andersdóttir og Elinóra Kristjánsdóttir, sem eiga sæti í stjórn nemendafélagsins, kynntu framkvæmdirnar.
Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir sagði frá IÐN valverkefni á unglingastigi sem unnið er í samvinnu við fyrirtæki í Borgarnesi.
Díana Dóra Baldursdóttir sagði frá þróunarverkefni sem unnið er í samstarfi við Menntaskóla Borgarfjarðar. Um er að ræða smíði apps sem les fyrir nemendur og gæti hentað lesblindum.






