Grænfáninn dreginn að húni

Ritstjórn Fréttir

Grænfáninn var dreginn að húni við grunnskólann í dag. Það táknar að skólinn hefur náð ákveðnum markmiðum varðandi umhverfismál. Ragnar Frank Kristjánsson færði skólanum fánann fyrir hönd Landverndar sem stendur að verkefninu.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau miða að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skólans.

Grunnskólinn í Borgarnesi hefur tekið þátt í Grænfánaverkefninu frá upphafi þess og stefnir á það áfram. Til að flagga fánanum þarf skóli að hafa stigið eftirfarandi sjö skref:

1. Umhverfisnefnd starfar innan skólans
Umhverfisnefnd starfar við skólann og skipuleggur og stýrir verkefninu. Í nefndinni sitja fulltrúar nemenda, kennara, starfsfólks, foreldra og stjórnenda skólans. Nefndin á að starfa samkvæmt lýðræðislegum leikreglum og nemendur eiga að hafa þar mikið vægi. Mikilvægt er að nefndin haldi reglulega fundi, þar séu skráðar fundargerðir og séð til þess að nemendum sé leiðbeint um hlutverk sitt sem fulltrúar samnemenda sinna við stjórnun skólans hvað umhverfisstefnu varðar. Þannig gegnir umhverfisnefndin mikilvægu hlutverki í kennslu í lýðræðislegum vinnubrögðum og lífsleikni.

2. Mat á stöðu umhverfismála
Meta skal stöðu umhverfismála í skólanum t.d. með aðstoð sérstaks gátlista. Matið á að ná til fjölmargra þátta. Nauðsynlegt er að sem flestir nemendur taki þátt matinu.

3. Áætlun um aðgerðir og markmið
Þær upplýsingar sem matið veitir eru notaðar til að gera áætlun um markmið og aðgerðir. Mikilvægt er að skólar setji sér raunhæf markmið, forgangsraði þeim og hafi í huga að ekki þarf að ná öllum markmiðum í einu – verkefnið heldur stöðugt áfram. Best er að setja sér fá og skýr markmið og gjarnan að einhverju leyti mælanleg.

4. Eftirlit og endurmat
Stöðugt eftirlit og endurmat á að tryggja að settum markmiðum sé náð, þau viðurkennd og þeim fagnað og ný markmið sett. Þessi þáttur á einnig að tryggja stöðuga umhverfismenntun í skólanum.

5. Fræðsla
Námsefnisgerð og verkefni. Flestir nemendur fá markvisst nám í samræmi við ákveðin þemu. Allur skólinn tekur mið af verkefninu t.d. með því að spara orku, stunda trjárækt og minnka rusl m.a. með endurvinnslu og flokkun. Byggja skal á námsskrá eftir því sem við á og bæta viðeigandi þáttum inn í skólanámskrá í samræmi við umhverfisstefnu skólans.

6. Kynning á stefnunni
Skóli með umhverfisstefnu hefur áhrif út á við, á sveitarstjórnir, fyrirtæki og samfélag í samræmi við Staðardagskrá 21. Skólarnir eru hvattir til að tengjast öðrum stofnunum til að læra af reynslu þeirra og sérþekkingu. Skólarnir eru einnig hvattir til að hafa samfélagið umhverfis í huga við gerð markmiða. Sýningar á verkum nemenda og kynningar í skólanum eða í fjölmiðlum upplýsa samfélagið um framgang verkefnisins.

7. Umhverfissáttmáli
Skólanum er settur umhverfissáttmáli sem lýsir í stuttu máli heildarstefnu skólans í umhverfismálum, umhverfismennt og framtíðarsýn. Mikilvægt er að sáttmálinn sé unninn í samvinnu allra sem að skólanum standa og að hann sé vel kynntur innan skólans og utan.

Þegar fáninn blaktir við hún er haldið áfram. Nýtt umhverfisráð er kosið sem setur sér ný markmið og keppist við að skólinn fái Grænfánann endurnýjaðan eftir tvö ár.