Hagir og líðan ungs fólks í Borgarbyggð

Ritstjórn Fréttir

Kynning á niðurstöðum rannsóknarinnar Ungt fólk meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk árið 2018
verður haldinn í Hjálmakletti miðvikudaginn 17. október kl. 17.30.
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari á
íþróttafræðisviði HR mun kynna niðurstöðurnar.
Rannsóknamiðstöðin Rannsóknir og greining hefur umsjón með fjölmörgum rannsóknum sem kanna
hagi og líðan barna og ungmenna bæði á Íslandi og erlendis. Rannsóknarröðin Ungt fólk er ein þeirra
en þær rannsóknir eru framkvæmdar meðal allra barna í grunnskólum landsins á nokkurra ára fresti
og hafa nýst við stefnumótun í forvarnastarfi á meðal fólks sem starfar á vettvangi með börnum og
unglingum í fjölda ára.
Rannsóknirnar hafa meðal annars kannað þætti í lífi barna og unglinga á borð við andlega og
líkamlega heilsu og líðan, fjölskylduaðstæður, frístundaiðkun, áfengis- og vímuefnaneyslu, árangur í
námi, líkamsrækt og þátttöku í íþróttastarfi, trúarskoðanir, mataræði og sjálfsvíg. Niðurstöður
rannsóknanna hafa verið nýttar með staðbundnum hætti, innan sveitarfélaga, hverfa og skóla til að
auka skilning á högum ungs fólks og bæta aðstæður þeirra, heilsu og líðan.
Ungt fólk rannsóknarröðin nær yfir öll börn og ungmenni á Íslandi í 5.-10. bekkjum grunnskóla og eru
um 4000 þátttakendur á ári hverju. Rannsóknirnar eru framkvæmdar með spurningalistum og eru
niðurstöður þeirra nýttar sem verkfæri fyrir fagaðila sem starfa á vettvangi með börnum og
unglingum í sveitarfélögum landsins til stefnumótunar í forvarnavinnu. Sú vinna sem fram hefur farið
á á vettvangi á Íslandi frá árinu 1997 hefur skilað sér í umtalsverðri minnkun á neyslu áfengis og
vímuefna meðal ungs fólks. Þetta sýna rannsóknirnar glögglega.
Foreldrar, nemendur og starfsfólk skóla eru hvött til að mæta á fundinn.