Háskólalestin er nú á sínu áttunda starfsári en hún var sett á laggirnar á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Áhersla starfsmanna lestarinnar er á kynna vísindi á lifandi, skemmtilegan og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki og hefur lestin heimsótt á fjórða tug sveitarfélaga um allt land frá því að hún lagði upp í sína fyrstu ferð.
Árleg maíreisa Háskólalestar Háskóla Íslands hófst að þessu sinni í Grunnskóla Vestmannaeyja. Borgarnes var annar áfangastaðurinn en þar stöðvaðist lestin dagana 11. og 12. maí með fjölbreytt vísindanámskeið fyrir grunnskólanemendur og vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna. Aðrir áfangastaðir lestarinnar nú í maí eru Grenivík og Egilsstaðir.
Föstudaginn 11. maí tóku kennarar Háskólalestarinnar að sér kennslu í Grunnskólanum í Borgarnesi og buðu um hundrað nemendum í 7.-10. bekk upp á námskeið í fornleifafræði, forritun, tómstunda- og félagsmálafræði, efnafræði, leik að hljóðum, japönsku máli og menningu, stjörnufræði og eðlisfræði. Hver nemandi átti kost á að velja þrjú námskeið fyrir daginn.
Bergur Eiríksson og Guðbrandur Jón Jónsson, nemendur 10. bekkjar, tóku báðir þátt í námskeiðum í japönsku og forritun en auk þess sat Bergur námskeið í stjörnufræði og Guðbrandur í eðlisfræði. Þeir voru afar ánægðir með þessa tilbreytingu frá hefðbundnu skólastarfi og fræðsluna sem þeir fengu. Það sama má segja um aðra nemendur skólans. Á myndinni má sjá Andreu Jónsdóttur og tvíburasysturnar Ásrúnu Öddu og Þóru Kristínu Stefánsdætur úr 9. bekk auk Huldu Bjarkar sem veitti þeim innsýn í heim fornleifafræðinnar.
Daginn eftir, laugardaginn 12. maí, sló áhöfn Háskólalestarinnar upp mikilli vísindaveislu fyrir almenning í mennta- og menningarmiðstöðinni Hjálmakletti.