Heima – flökkusýning Listasafns Reykjavíkur

Ritstjórn Fréttir

Listsýningin Heima sem er flökkusýning Listasafns Reykjavíkur hefur verið sett upp í sal skólans og verður hægt að skoða hana þar næstu þrjár vikurnar.  Verkin á sýningunni, sem öll eru frummyndir, eru eftir Sigríði Melrós Ólafsdóttur, Einar Fal Ingólfsson, Hallgrím Helgason, Guðjón Ketilsson, Erró, Önnu Líndal, Jóhann Ludwig Torfason og Jóhannes Jóhannesson.

Í texta sem fylgir sýningunni segir meðal annars: „Heima er orð sem hefur víðtæka merkingu. Myndlistarmenn og -konur hafa í gegnum tíðina fjallað um hugtakið heima á margvíslegan hátt. Hvar á maður heima? Í alheiminum, á jörðinni, á Íslandi, úti á landi, í Stykkishólmi, í hverfinu, í blokkinni, í húsinu, í íbúðinni, hjá foreldrum sínum, hjá börnunum sínum, hjá afa og ömmu, í vinahópnum, í skólanum, í frístundastarfinu, í vinnunni, í hægindastólnum? Eða á nokkrum stöðum samtímis?

Orðið heima hefur gjarnan tilvísun í umhverfi þar sem við erum örugg og er þá tengt jákvæðum tilfinningum og minningum í huga fólks. Þó eru sumir sem finna ekki öryggi á heimilum sínum. Orsök þess getur verið inni á heimilinu, svo sem streita, fíknivandamál og heimilisofbeldi eða utanaðkomandi ógnir eins og heimsfaraldur, fátækt eða stríð. Sumir ná ekki að tengja heima við neinn sérstakan stað því þeir hafa þurft að flytja frá einum stað til annars. Heima er ekki eins fyrir alla.

Á flökkusýningu Listasafns Reykjavíkur er ykkur boðið heim í stofu gleði og öryggis – þar sem listaverkin hanga á veggjunum; nemendum og kennurum er boðið að ganga inn og njóta myndlistar í hlýlegu og heimilislegu umhverfi, í sínum eigin skóla.“

Markmið flökkusýningarinnar og meðfylgjandi fræðsluefnis er að veita kennurum innblástur og stuðning við kennslu. Hægt er að tengja listaverkin við nám í sjónlistum og einnig við námsvettvang í þverfaglegu námi og tengja þau verkefnum sem verið er að vinna hverju sinni. Auðvelt er að tengja þemað – heima –  við mörg af hæfniviðmiðum aðalnámskrár t.d. í samfélagsfræði og heimspeki, sem og í umræður um sköpun og túlkun almennt á umhverfi sínu. Það tengist svo sannarlega mörgum meginmarkmiðum aðalnámskrár, s.s. grunnþáttum hennar á borð við sköpun og sjálfbærni. Einnig má tengja efni þessarar sýningar við réttindi barna sem koma fram í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.