Dagana 23. – 24. nóvember voru starfsdagar í skólanum. Flestir starfsmenn lögðu land undir fót og fóru til Boston á námskeið í Uppeldi til ábyrgðar en nær allir þeirra sem ekki fóru, heimsóttu starfsstöðvar Grunnskóla Borgarfjarðar á miðvikudeginum.
Fyrst var ekið að Hvanneyri, þar sem Helga deildarstjóri og tveir móttökuleiðtogar tóku á móti hópnum. Þau kynntu útikennslu og kennslu í forritun og upplýsingamennt og fengu gestirnir að spreyta sig á verkefnum. Útikennslusvæðið á Hvanneyri er skemmtilegt og til eftirbreytni.
Á Kleppjárnsreykjum tóku Ingibjörg Inga og Ingibjörg Adda á móti hópnum. Þar var einnig skoðað útikennslusvæði og aðferðir við byrjendalæsi og innleiðingu nýs námsmats voru kynntar. Hádegismatur var borinn fram í fínu mötuneyti skólans.
Loks var haldið að Varmalandi þar sem Aron deildarstjóri og tveir nemendur leiddu sýndu skólann. Unglingadeildinni hefur nú verið komið fyrir á efri hæð hússins eftir að Húsmæðraskólinn gamli var seldur. Byrjendalæsi í yngstu bekkjum var kynnt og loks hlýddi hópurinn á fyrirlestur um útikennslu og leiki.
Þetta var góð og gagnleg ferð og móttökur góðar. Öflug útikennsla vakti sérstaka athygli. Grunnskólinn í Borgarnesi þakkar fyrir og vonast til að geta endurgoldið samstarfsfólki í héraði móttökurnar við tækifæri.
- Indjánatjald
- Útikennsla
- Ása kynnir útikennslu á Varmalandi
- Dásamlegur hádegisverður á Kleppjárnsreykjum