Hillir undir lok samkomubanns

Ritstjórn Fréttir

Fjölhæfni og sveigjanleiki starfsfólks og nemenda grunnskólans hafa svo sannarlega komið í ljós í samkomubanninu undanfarnar vikur. Eins og öllum er kunnugt varð talsverð breyting á skólastarfinu vegna þeirra takmarkana sem samkomubanninu fylgja. Miklar varúðarráðstafanir hafa verið viðhafðar í skólaeldhúsi og matsal; sjálfsafgreiðsla lögð af og nemendur hafa matast í litlum hópum. Skólaganga nemenda á yngsta stigi hefur ekki raskast en nemendum á mið- og unglingastigi var skipt í hópa sem mætt hafa annan hvern dag. Enginn samgangur er milli yngsta stigsins og eldri nemenda. Kennarar og aðrir starfsmenn hafa brugðið sér í margvísleg hlutverk sem allajafna rúmast ekki innan starfslýsinga viðkomandi. Sem dæmi má nefna að list- og verkgreinakennarar hafa sinnt íþróttakennslu og íþróttakennarar list- og verkgreinakennslu; hver kennari fylgir þá sama hópnum í þessum greinum. Húsvörður, ritari, bókavörður, velferðarkennari, stuðningsfulltrúar og fleiri hafa tekið til hendinni við uppvask og aðstoð í mötuneyti. Margir kennarar hafa öðlast umtalsverða reynslu og leikni við fjarkennslu. Álag hefur verið mikið á þeim sem starfa við þrif vegna aukinna krafna. Skólasafnið hefur verið lokað nemendum en kennarar hafa getað sótt þangað bækur. Þegar bókum er skilað fara þær í „sóttkví“ í þrjá sólarhringa og eru síðan þvegnar með sótthreinsi. Skólastjórnendur mæta til skiptis í skólann, annan hvern dag en vinna þess á milli heima. Þannig mætti lengi telja. Starfsmenn eru sammála um að miðað við aðstæður þá hafi allt gengið eins og best verður á kosið. Því er þó ekki að leyna að bæði nemendur og starfsfólk eru farin að hlakka til þess að skólastarfið komist í eðlilegar skorður að nýju.