Hundrað daga hátíð

Ritstjórn Fréttir

Hundrað daga hátíð var haldin á yngsta stigi í dag. Tilefni hátíðarinnar er að 100 skóladagar eru liðnir af skólaárinu. Hátíðir af þessu tilefni eru haldnar víða í skólum. Að undanförnu hafa nemendur 1. – 3. bekkjar lært um tugakerfið og  unnið ýmis verkefni þar að lútandi og í dag var farið í leiki og þrautir. Nemendum var skipt í sex hópa þvert á bekkjardeildir. Eitt verkefnið fólst í því að reisa byggingu úr 100 kaplakubbum en þá þurfti vitaskuld að byrja á því að telja og taka saman 100 kubba áður en byggingavinnan gat hafist. Annað verkefnið snerist um hreyfingu en þar gerðu nemendur 10 mismunandi líkamsæfingar; 10 sinnum hverja eða 100 samtals. Í þriðja verkefninu fengust nemendur við að lita eftir tölum frá 1 – 100 og komu þá margbreytilegar myndir í ljós. Loks var boðið upp á fjölbreytt snakk og mátti hver nemandi fá 100 stykki; tíu af hverri tegund.