Nemendur á unglingastigi hafa að undanförnu unnið stærðfræðiverkefni sem fólst í því að þau kynntu sér kostnað við jólahald meðalfjölskyldu. Nemendur unnu í 3 manna hópum og gerðu grein fyrir niðurstöðum sínum í dag. Fjölskyldur 8. bekkinga máttu eyða ótæpilega í aðdraganda jóla en fjölskyldur 9. og 10. bekkja fengu úthlutað ákveðnum upphæðum á bilinu 100 – 350 þúsund og þurftu að láta það duga. Nemendur settu niðurstöður sínar fram á veggspjöldum, með glærukynningum og í excel skjölum og leiddu þær m.a. í ljós að hægt er að gera vel við sig á jólum þó auraráðin séu ekki ótakmörkuð. Júlía skólastjóri hefur nú þegar lýst áhuga sínum á að nemendur sjái um jólainnkaupin fyrir hana að ári og sér fram á að geta sparað stórfé með því móti. Að mati stærðfræðikennaranna Ingu Margrétar Skúladóttur og Birnu Hlínar Guðjónsdóttur stóðu nemendur sig vel í þessu skemmtilega og raunhæfa verkefni.