Skólameistaramót Vesturlands fór nýverið fram í Grunnskólanum í Borgarnesi. 13 skákmenn leiddu þar saman hesta sína; sjö í eldri flokki og sex í þeim yngri. Hart var tekist á í báðum flokkum og svo fór að það þurfti aukakeppni í eldri flokki til að útkljá keppnina. Þar hafði Jóhann Hlíðar Hannesson betur í úrslitaskák gegn Birni Ólafi Haraldssyni. Hinrik Úlfarsson hafði yfirburði í yngri flokki og vann allar sínar skákir.
Spennan var allan tímann mikil í eldri flokki og voru þrír keppendur efstir og jafnir fyrir lokaumferðina. Jóhann Hlíðar og Björn Ólafur gerðu jafntefli í lokaumferðinni og tefldu úrslitaskák um titilinn skólameistari Vesturlands og þá hafði Jóhann Hlíðar betur. Daniel Victor Herwigsson og Steinar Örn Finnbogason urðu jafnir í 3. – 4. sæti en Steinar náði bronsinu eftir úrslitaskák þeirra.
Hinrik Úlfarsson van,n eins og áður segir, öruggan sigur í yngri flokki. Í öðru sæti varð Örn Einarsson og Reynir Jóngeirsson hafnaði í því þriðja.
Páll Leó Jónsson hafði umsjón með mótinu. Hann hefur byggt upp öflugt skákstarf í Grunnskólanum í Borgarnesi þar sem um 20 nemendur unglingadeildar mæta vikulega í skákval. Gunnar Björnsson aðstoðaði við skákstjórn.