Jólabókaleikur

Ritstjórn Fréttir

Að undanförnu hefur nemendum gefist kostur á að koma á bókasafnið og greiða þeirri bók atkvæði sem þeir hafa mestan áhuga á að lesa. Atkvæði hafa nú verið talin og athygli vekur að íslenskir höfundar verma flest efstu sætin. Í þremur efstu sætum eru Pabbi prófessor, Þín eigin hrollvekja og Henri og hetjurnar í þessari röð. Höfundar þeirra Gunnar Helgason, Ævar Þór Benediktsson og Þorgrímur Þráinsson komu reyndar allir í heimsókn í skólann nýverið og lásu upp fyrir nemendur. Í fjórða sæti er nýja leikritið um Harry Potter og svo nýútkomnar íslenskar sögur Skóladraugurinn eftir Ingu Mekkin Beck og Doddi, bók sannleikans eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur og loks Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur. Aðrar bækur fengu færri atkvæði en alls hlutu hátt á þriðja tug bóka atkvæði.
Niðurstöðurnar munu hafa áhrif á bókainnkaup til safnsins því nauðsynlegt er að eiga nokkur eintök af vinsælustu bókunum.
Nafn eins nemanda verður dregið úr atkvæðaseðlunum og mun hann hljóta óskabókina sína að gjöf.