Útvarp Óðal fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir en fyrsta útsending þess var árið 1992. Af því tilefni verður sérstakur tveggja tíma afmælisþáttur sendur út í dag, mánudaginn 11. des og hefst útsendingin klukkan 16.00. Rætt verður við Indriða Jósafatsson fyrrverandi æskulýðsfulltrúa en hann var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun útvarpsins á sínum tíma. Einnig verður rætt við fyrrverandi starfsmenn útvarpsins sem getið hafa sér gott orð í fjölmiðlum en það eru þau Guðmundur Björn Þorbjörnsson frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV og Kristín Sif Björgvinsdóttir útvarpskona en hún annast þáttagerð og stýrir samfélagsmiðlum á útvarpsstöðinni K 100. Einar Bragi Hauksson sem bar hita og þunga af tæknimálum útvarpsins um árabil verður einnig gestur þáttarins sem og Sigurþór Kristjánsson eða Sissi sem lengi hefur staðið vaktina við útsendingar úr Óðali.
Í þættinum verða jafnframt fluttar gamlar auglýsingar og brot úr gömlum þáttum. Umsjónarmenn afmælisþáttarins eru Marinó Þór Pálmason útvarpsstjóri, Sigfús Páll Guðmundsson og Axel Sveinbjörnsson.