Jólaútvarpið 25 ára

Ritstjórn Fréttir

Nú er hafinn undirbúningur að þáttagerð fyrir jólaútvarp
Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi, Útvarp Óðal 101,3. Hér er um
árvissan viðburð að ræða sem er orðinn ómissandi liður í jólaundirbúningi í
Borgarbyggð. Jólaútvarpið hóf göngu sína árið 1992 og er því 25 ára
nú í ár.

Allir nemendur skólans taka þátt í jólaútvarpinu. Nemendur yngri bekkja gera
sameiginlega bekkjarþætti undir stjórn kennara og fær hver bekkur klukkutíma til
útsendingar. Þættir yngri nemenda verða teknir upp í lok nóvember.
Nemendum í 8.‒10. bekk gefst kostur á að vera með þátt í beinni útsendingu.
Enginn fær að fara óundirbúinn í beina útsendingu, allir verða að skila inn
handriti til kennara. Undirbúningur þáttanna fer fram í skólanum,
íslenskukennarar bekkjanna stýra þeirri vinnu og er jólaútvarpið sérstakur liður
í íslenskunáminu. Allir gera handrit hvort sem þeir fara í útvarp eða ekki og er
lögð mikil vinna í upplýsingaöflun og gerð handritanna.
Áhersla er lögð á gott og vandað málfar og kennarar lesa handrit yfir áður en
farið er í útsendingu og fara þá fram á lagfæringar ef þörf er á. Handrit eru síðan
metin til einkunna í íslenskunáminu ásamt flutningi nemenda á efni þáttarins.
Fastur liður í jólaútvarpinu eru auglýsingar en mörg fyrirtæki í sveitarfélaginu styrkja
útsendingu útvarpsins með því að kaupa auglýsingar sem fluttar eru á milli þátta.
Nemendur sjá um að semja auglýsingarnar og flytja þær á fjölbreyttan hátt með lestri,
leik og söng.
Hitann og þungann af vinnu við undirbúning og útsendingar útvarpsins ber stjórn
Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi ásamt tæknimönnum úr hópi nemenda.
Útvarp Óðal 101,3 verður sent út dagana 11. -15. desember.