Jólaútvarpið undirbúið

Ritstjórn Fréttir

Nemendur Grunnskólans í Borgarnesi hafa í hátt í 30 ár staðið fyrir útvarpsútsendingum á aðventunni. Útvarpsstöðin nefnist FM Óðal og hefur ævinlega notið mikilla vinsælda bæjarbúa. Að undanförnu hafa nemendur yngri bekkja tekið upp þætti sína í tónmenntastofunni en eldri nemendur munu að vanda flytja sitt efni í beinni útsendingu. Þeir vinna nú að handritsgerð og öðrum undirbúningi og er óhætt að segja að margt fróðlegt og skemmtilegt mun bera á góma. Útsending jólaútvarpsins FM Óðals hefst mánudaginn 6. desember kl. 10 árdegis með ávarpi útvarpsstjóra Valborgar Elvu Bragadóttur en hefð er fyrir því að formaður nemendafélagsins gegni hlutverki útvarpsstjóra.

Þess má til gamans geta að margt þekkt fjölmiðlafólk steig sín fyrstu skref á fjölmiðlabrautinni í jólaútvarpinu. Nefna má fréttamennina Magnús Geir Eyjólfsson og Sigríði Dögg Auðunsdóttur og dagskrárgerðarfólkið Kristínu Sif Björgvinsdóttur og Guðmund Björn Þorbjörnsson.