Undirbúningur fyrir hið árlega jólaútvarp grunnskólans er nú að hefjast. Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona á K100 mætti í íslenskutíma í 10. bekk með hjálp Teams fjarfundabúnaðarins. Kristín, sem er innfæddur Borgnesingur og fyrrum nemandi í GB, ræddi við nemendur um starfið í útvarpinu og hvernig þátttaka í jólaútvarpinu forðum hefur nýst henni í starfi. Þá svaraði Kristín spurningum nemenda og bauð þeim að hafa samband við sig ef áhugi væri fyrir hendi á að kynnast útvarpsstörfum nánar.
Íslenskukennarar 10. bekkjar þær Bjarney Bjarnadóttir og Sóley Sigurgeirsdóttir segja heimsóknina hafa verið afar ánægjulega og lærdómsríka og eru þakklátar Kristínu Sif fyrir að hafa gefið sér tíma til að spjalla við nemendur sem á næstu vikum munu fást við dagskrárgerð af kappi.