Kennarar í gengu á fund sveitarstjóra

Ritstjórn Fréttir

Kennarar í grunnskólum Borgarfjarðar gengu á fund sveitarstjórnar þann 15. nóvember til þess að undirstrika þá alvarlegu stöðu sem við blasir í kjaramálum. Gunnlaugur Júlíusson, sveitarstjóri, tók við eftirfarandi yfirlýsingu.

Yfirlýsing til sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá grunnskólakennurum í grunnskólum Borgarfjarðar,
þriðjudaginn 15. nóvember, 2016:

Nú er svo komið að kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og eru viðræður hafnar. Ef mið er tekið af viðbrögðum og afstöðu sveitarfélaga í launaviðræðum þann tíma sem samningar hafa verið lausir ríkir ekki mikil bjartsýni um ásættanlegan árangur af þessum samningaviðræðum. Kennurum hefur sýnst að samninganefnd sveitarfélaga hafi í raun ekkert umboð til alvöru, raunhæfra viðræðna sem gætu skilað raunverulegum árangri. Því miður virðist vilji sveitarfélaga frekar snúast að því að draga kjaraviðræður á langinn og reyna að svæfa baráttuanda kennarastéttarinnar með fálæti.

Innan raða kennara hefur verið rætt um verulegar launaleiðréttingar sem mynda færa laun grunnskólakennara til samræmis við háskólamenntaða sérfræðinga og aðrar viðmiðunarstéttir. Efasemdarröddum um að þær launakröfur séu raunhæfar er ekki hægt að svara öðruvísi en svo að þær séu mun raunhæfari en sú afstaða launagreiðenda okkar að skólastarf geti haldið áfram án þess að gengið verði að slíkum kröfum.

Það álit hefur verið viðrað af ýmsum félögum okkar að ef sveitarstjórnir geti ekki mætt svona hóflegum launakröfum, auk þeirra útgjalda sem fylgja því að gera starfsumhverfi kennara mannsæmandi að öðru leyti, ættu þær annaðhvort að krefjast þess að í fjárlögum ríkisins verði eyrnamerkt útgjöld tengd endurmati á yfirfærslu grunnskólanna til sveitarfélaga, þ.e. veruleg árleg greiðsla til reksturs skólanna, eða hreinlega að sveitarfélögin skili rekstri grunnskólanna að öllu leyti aftur til ríkisins.
Þetta er raunveruleiki sem sveitarfélögin geta ekki lengur skorast undan og kallar á alvöru viðræður þeirra við ríkisstjórnina um óumflýjanlegar lausnir.
Sveitarfélögin verða hreinlega að koma það heiðarlega fram að þau viðurkenni vanmátt sinn til að sjá um rekstur grunnskólanna. Því að það er alveg á hreinu að ef ekki verður gerð umtalsverð bragarbót á vinnuumhverfi og launakjörum grunnskólakennara þá verður grunnskólakerfið rjúkandi rúst innan fárra ára.

2016-11-15-15-07-34