Kennsla í valgreinum hefst að nýju

Ritstjórn Fréttir

Ný reglugerð vegna sóttvarna gerir kleift að hefja aftur kennslu á valgreinum í skólanum. Valgreinar eru hluti af skyldunámi í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla. Í grunnskólanum í Borgarnesi er jafnframt boðið upp á valáfanga á miðstigi. Tilgangurinn með valgreinum er  meðal annars að laga námið að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að sníða námið að hluta að áhugasviði og framtíðaráformum.
Þessa dagana eru nemendur að velja sér námskeið og að öllu óbreyttu verður
byrjað að kenna valgreinar í næstu viku. Nemendur á miðstigi fá blað þar sem þeir geta
merkt við þau námskeið sem þeir velja en nemendur á unglingastigi velja rafrænt.
Mikilvægt er að nemendur vandi val sitt og átti sig á inntaki þess námskeiðs sem þeir
kunna að velja. Því er mælt með að nemendur afli sér sem bestra upplýsinga og jafnvel
fari yfir það með foreldrum sínum hvaða valáfangar eru í boði sem kynnu að henta þeim.