Lestrarátak Ævars og bernskubrek

Ritstjórn Fréttir

Nýverið lauk fimmta og síðasta lestrarátaki Ævars vísindamanns. Frá árinu 2014 hefur Ævar efnt árlega til lestrarátaks í grunnskólum í byrjun árs. Við lok hvers lestrarátaks hefur hann dregið út nöfn nokkurra þátttakenda og hafa þeir orðið að persónum í bókum um bernskubrek Ævars sem gefnar hafa verið út að vori. Þessar bækur eru Risaeðlur í Reykjavík, Vélmennaárásin, Gestir utan úr geimnum, Ofurhetjuvíddin og í vor er von á síðustu bókinni í flokknum og mun hún bera heitið Óvænt endalok.

Bækurnar hafa verið sérlega kærkomnar þar sem útgáfa barnabóka miðast aðallega við jól en þessar bækur hafa fylgt lesendum inn í sumarið.

Ljóst er að met var slegið í lestri bóka í lestrarátaki Ævars árið 2019. Samtals lásu íslenskir grunnskólanemar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Þetta þýðir að á fimm árum hafa verið lesnar tæplega 330.000 bækur í lestrarátökum Ævars vísindamanns!

Veittar voru viðurkenningar fyrir hlutfallslega mestan lestur á hverju skólastigi og sömuleiðis þeim skóla sem las hlutfallslega mest í heildina:

Eftirtaldir skólar hlutu viðurkenningar.
Yngsta stig: Álftanesskóli
Miðstig: Árskógarskóli, Dalvíkurbyggð
Efsta stig: Þelamerkurskóli
Yfir öll skólastig: Grunnskóli Drangsness

Þessir skólar fá það í verðlaun að vera skrifaðir inn í síðustu bókina í bókaflokknum um bernskubrek Ævars vísindamanns, Óvænt endalok, sem kemur út í júní. Sem endranær verða líka fimm grunnskólanemendur persónur í bókinni og auk þess eitt foreldri!

Ævar dró jafnframt út eitt nafn í hverjum skóla sem þátt tók í átakinu og fær viðkomandi áritað eintak af Óvæntum endalokum þegar hún kemur út. Hjá okkur var það Sebastian Gísli Mathiasen í 2. bekk sem datt í lukkupottinn.