Lestrarátak Ævars vísindamanns snýr aftur

Ritstjórn Fréttir

Lestrarátak Ævars vísindamanns er nú hafið í fjórða sinn og stendur yfir frá 1. janúar til 1. mars. Allir nemendur 1. – 10. bekkja grunnskólans mega taka þátt að þessu sinni en fyrri átök hafa einungis náð til 1. – 7. bekkja. Lesa má hvaða bækur sem er og á hvaða tungumáli sem er; hljóðbækur teljast einnig með sem og bækur sem lesnar eru fyrir krakkana (t.d. af foreldrum eða afa og ömmu). Fyrir hverjar þrjár bækur sem lesnar eru fylla nemendur út lestrarmiða og skila á næsta skólasafn. Í byrjun mars verður svo dregið úr öllum innsendum lestrarmiðum og fá fimm krakkar að verða persónur í nýrri æsispennandi ofurhetjubók eftir Ævar sem kemur út í maí. Þær þrjár bækur sem Ævar hefur til þessa skrifað í kjölfar lestrarátaksins eru Risaeðlur í Reykjavík (2015), Vélmennaárásin (2016) og Gestir utan úr geimnum (2017).
Í síðustu þremur átökum voru lesnar yfir 177 þúsund bækur og verður spennandi að sjá hvernig til tekst í ár.

6a5733_cf197cc07f8d4ad3ba4914360b5c2e56