Lestrarátak í október

Ritstjórn Fréttir

Október er sérstaklega tileinkaður lestri í Grunnskólanum í Borgarnesi og af því tilefni verður efnt til sérstaks lestrarátaks á yngsta stigi og miðstigi.
Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til þess að taka virkan þátt í átakinu. Haldið verður hraðlestrarnámskeið og á næstu dögum koma nemendur heim með hraðlestrarhefti sem lesa á í heima.
Hraðlestrarnámskeiðið byggir á því að nemendur lesa heima í viðbót við sinn venjulega heimalestur; þrisvar sinnum eina mínútu á dag, tíminn er tekinn og orð talin. Nemendur eru í raun að keppa við sjálfa sig og auðveldlega má gera lesturinn að skemmtilegum leik. Einnig mætti gera samkomulag við nemendur um að þegar nemandi hafi lokið lestri allra textanna þá geri foreldrar og nemandi eitthvað skemmtilegt saman. Það er í sjálfu sér ákvörðun hverrar fjölskyldu fyrir sig en skólinn hvetur til þess að verðlaunum verði stillt í hóf og frekar hugað að gæðum samverunnar.
Leiðbeiningar varðandi framkvæmd námskeiðsins er að finna á forsíðu heftisins en jafnframt er heimilt að hafa samband við kennara ef eitthvað er óljóst.  Kennarar og nemendur vona að heimilin taki vel í að vinna að þessu átaki með þeim. Höfum það hugfast að æfingin skapar meistarann!