Líf og fjör á lokadögum skólaársins

Ritstjórn Fréttir

Mikil fjölbreytni einkennir skólalífið nú undir lok skólaársins og hefur verið bryddað upp á ýmsu skemmtilegu til að brjóta upp hefðbundið skólastarf. 2., 3. og 7. bekkir ösluðu leirinn út í Litlu Brákarey þar sem Finnur Torfi Hjörleifsson fræddi þau um varpið sem þar er að finna. 6. bekkur fór í uppsveitir Borgarfjarðar og hlýddi m.a. á fyrirlestur sr. Geirs Waage í Reykholti um mannlíf og menningu á miðöldum. Boðið var upp á fatasund í sundlauginni í íþróttatímum og vakti það mikinn fögnuð. 4., 9., og 10. bekkir fara í vorferðalög í næstu viku og halda þeir nemendur ýmist á Hvanneyri, í Hvalfjörðinn eða til höfuðborgarinnar. 5. bekkur tók forskot á sæluna og fór í sitt vorferðalag til Reykjavíkur fyrir nokkrum vikum. Þar skoðuðu þau landnámssýninguna og fóru í heimsókn á Þjóðminjasafnið. Margir gestir komu á vorsýningu skólans þann 24. maí en þar var afrakstur vetrarstarfsins sýndur og nemendur 9. bekkjar seldu kaffi og kræsingar til styrktar ferðasjóði nemenda.
Skólaslit verða föstudaginn 2. júní; þá verður farið í ratleik með nemendum 1. – 9. bekkjar og endað í pylsuveislu og afhendingu prófskírteina í Skallagrímsgarði. Brautskráning 10. bekkjar hefst svo í Hrafnakletti kl. 18.00.