Lionsklúbburinn Agla styrkir bókasafnið

Ritstjórn Fréttir

Lionshreyfingin stendur um þessar mundir fyrir alþjóðlegu verkefni sem felst í því að berjast gegn ólæsi og hvetja til lestrar. Átakið stendur yfir um tíu ára skeið, það hófst árið 2012 og stefnt er að því að ljúka því árið 2022. Hugtakið læsi er notað um lágmarksfærni til að lesa texta og skrifa á tilteknu tungumáli og nær bæði til lestrar og ritunar. Það gefur auga leið að til þess að ná góðum tökum á læsi þarf fólk að búa við gott aðgengi að lesefni við hæfi. Verkefni Lionshreyfingarinnar býður upp á ýmsa möguleika til að hvetja til lestrar. Lionsklúbburinn Agla í Borgarnesi lagði sitt lóð á vogarskálarnar nýlega og færði bókasafni grunnskólans 70.000 krónur sem varið verður til kaupa á nýjum bókum fyrir börn og unglinga. Nemendur og starfsfólk skólans þakka þessa rausnarlegu gjöf.