List fyrir alla er verkefni sem ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Verkefnið er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Tónverkið, Djákninn á Myrká eftir Huga Guðmundsson hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um barnaverk á Norrænum Músíkdögum í Finnlandi árið 2013. Sagan er í senn heillandi og óhugnanleg og því var mikilvægt að finna tónlistarlega leið sem gæti passað fyrir börn á grunnskólaaldri. Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur fór þá leið að setja þjóðsöguna inn í aðra sögu og skapa þannig fjarlægð frá mesta óhugnaðinum án þess að breyta sjálfri þjóðsögunni. Verkið var frumflutt á finnsku en hefur síðar verið flutt á íslensku, sænsku og dönsku í mismunandi útgáfum, m.a. fyrir stóra sinfóníuhljómsveit.
Tónlistarhópurinn Djákninn flutti verkið í sal Grunnskólans í Borgarnesi þann 13. desember fyrir nemendur í 3., 4. og 5. bekk. Hópinn skipa Sverrir Guðjónsson sem er sögumaður, Pétur Jónasson gítarleikari, Haukur Gröndal klarinettleikari og Sigurður Halldórsson sem leikur á selló.