List fyrir alla – Milkywhale í Hjálmakletti

Ritstjórn Fréttir

Fimmtudaginn 5. október verða tónleikar fyrir nemendur grunnskólans og Laugagerðisskóla í Hjálmakletti. Hljómsveitin Milkywhale leikur. Tónleikarnir eru á vegum verkefnisins List fyrir alla. Tónleikar fyrir 1. – 6. bekk hefjast klukkan 10.10 og tónleikar fyrir 7. – 10. bekk hefjast kl. 11.

Verkefnið List fyrir alla er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Tilgangur þess er að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum.

Milkywhale er danshljómsveit skipuð danshöfundinum og söngkonunni Melkorku Sigríði Magnúsdótttur og tónlistarmanninum Árna Rúnari Hlöðverssyni (FM Belfast, Prins Póló). Saman hafa þau skapað röð popplaga eftir textum Auðar Övu Ólafsdóttur rithöfundar, nokkurs konar sjónrænt ferðalag inn í hljóðheima og dansflutning. Þessir tónleikar fjalla meðal annars um hluti á borð við ástina, trampólínæfingar, hvali og hvít dýr. Milkywhale hefur hlotið frábæra dóma en sveitin spilaði fyrst opinberlega á Airwaves 2015 en Reykjavik Grapevine lýsti hljómsveitinni á þennan veg: “Milkywhale er skál af Skittles blönduð átta tvöföldum expressos, toppuð með gleðinni sem fylgir því að fá nýjan hvolp og trampólín á jóladagsmorgni.“

Milkywhale hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum hérlendis og erlendis og meðal annars spilað á Sónar Reykjavík, Canadian Music Week og Hróarskelduhátíðinni í Danmörku.