Lokadagur jólaútvarpsins er í dag, föstudaginn 15. desember. Útsendingar hafa staðið frá mánudegi og hafa nær allir nemendur grunnskólans komið að þeim með einum eða öðrum hætti. Hápunktar dagskrárinnar í dag verða þátturinn Bæjarmálin í beinni og bein útsending frá leik Skallagríms og ÍA í körfubolta. Þá verður 25 ára afmælisþáttur Óðals endurtekinn og í lok dagskrár verður greint frá því hvaða nemendur hlutu verðlaun fyrir handrits- og/eða þáttagerð og tæknivinnu. Viðmælendur fréttastofunnar í Bæjarmálunum í beinni verða Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri, Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar, Pálmi Þór Sævarsson formaður byggingarnefndar grunnskólans, Júlía Guðjónsdóttir skólastjóri, Halldóra Björnsdóttir kennari og leikstjóri, Kristján Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri Eðalfisks og Hanna Sigríður Kjartansdóttir frá Ljómalind. Umsjónarmenn þáttarins eru Marinó Þór Pálmason útvarpsstjóri, Berghildur Reynisdóttir og Sigfús Páll Guðmundsson. Þeim til aðstoðar verður Gísli Einarsson fréttamaður á RÚV.
Snæþór Bjarki Jónsson og Alexander Jarl Ríkharðsson hafa tekið að sér að lýsa leik Skallagríms og ÍA í fyrstu deild karla í beinni útsendingu kl. 19.00 en þeir eru báðir fyrrverandi nemendur grunnskólans. Leikurinn fer fram í Borgarnesi. Klukkan 21.00 hefst svo útsending frá lokahófi starfsfólks útvarpsins og dagskránni lýkur kl. 22 með kveðju útvarpsstjóra.