Lokahátíð Stóru upplestrarhátíðarinnar

Ritstjórn Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi var haldin í Heiðarskóla þann 10. apríl. Það voru þau Andrea Karítas Árnadóttir, Elfa Dögg Magnúsdóttir og Reynir Jóngeirsson sem tóku þátt fyrir hönd Grunnskólans í Borgarnesi. Þau stóðu sig með mikilli prýði og voru skólanum okkar til sóma. Fyrstu verðlaun féllu að þessu sinni í hlut Grunnskóla Borgarfjarðar en önnur og þriðju hrepptu nemendur úr Auðarskóla.
Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 – 1997 með þátttöku barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Nú, rúmum 20 árum síðar, taka flestir grunnskólar landsins þátt í verkefninu. Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara.
Upplestrarkeppnin er ekki „keppni“ í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.
Keppnin hefst á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, ár hvert og lýkur í mars/apríl. Í upphafi skólaárs taka kennarar og skólar ákvörðun um hvort þeir ætla að taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk. Umsjón með verkefninu er í höndum skólaskrifstofa í hverju héraði, eða sérstakra umsjónarmanna, en Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, styðja verkefnið með ráðum og dáð á heimasíðu sinni.
Ræktunarhluti keppninnar, sjálft bekkjarstarfið, er í rauninni sá hluti keppninnar sem máli skiptir. Honum lýkur við hátíðlega athöfn með því að hver skóli velur einn lesara eða fleiri til að taka þátt í lokahátíð héraðsins.
Lokahátíðir eru svo haldnar í hverjum landshluta og þar koma saman nemendur grunnskólanna og lesa fyrir gesti.