Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi

Ritstjórn Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi var haldin í Grunnskólanum í Borgarnesi þann 21. mars sl . 9 nemendur úr Auðarskóla, Heiðarskóla, Grunnskóla Borgarfjarðar og Grunnskólanum í Borgarnesi lásu kafla úr bókinni Grísafjörður eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og ljóð úr bókinni 1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur. Auk þess lásu börnin ljóð að eigin vali.

Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, stóðu að keppninni um 25 ára skeið en nú hafa skólarnir tekið við umsjón hennar.  Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 – 1997 með þátttöku barna  í Hafnarfirði og á Álftanesi og breiddist svo á næstu árum út um allt land. Upplestrarkeppnin er ekki keppni í venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni þar sem höfuðáhersla er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af og fái þjálfun í upplestri og framsögn. Keppnin hefst á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember,  ár hvert og lýkur í mars.

Erla Ýr Pétursdóttir úr Grunnskóla Borgarfjarðar hreppti fyrsta sæti, Viktor Bjarni Arnarsson úr Auðarskóla hreppti annað sætið og Þóra Kolbrún Ólafsdóttir úr Grunnskólanum í Borgarnesi varð þriðja. Þau hlutu peningaverðlaun en allir keppendur fengu viðurkenningarskjal.

Ágúst Davíð Steinarsson, nemandi í 10. bekk Grunnskólans í Borgarnesi, lék frumsamið verk, Vals í c moll, á flygilinn. Boðið var upp á veitingar á meðan dómnefnd sat að störfum.

Í dómnefnd sátu Kristín Björk Guðmundsdóttir fyrrverandi skólastjóri í Laugagerðisskóla, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Landnámsseturs og Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður.