Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi

Ritstjórn Fréttir

Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar, sem nemendur í 7. bekkjum grunnskóla vítt og breitt um landið taka þátt í, standa nú yfir. Allir skólar, með um 4400 12 ára nemendur, eru árlega skráðir til verkefnisins og hefst keppnin formlega á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Þá hefst ræktunarhluti verkefnisins, sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir, og stendur hann fram í febrúar. Á því tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk. Í mars eru lokahátíðir keppninnar haldnar í hverju héraði. Þar koma fram fulltrúar skólanna og lesa texta og ljóð en það er sama lesefnið hjá öllum og valið af fagfólki. Að þessu sinni er það texti úr Sögunni af Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur. Auk þess lesa þátttakendur eitt ljóð að eigin vali.

Verkefnið hefur frá upphafi hlotið góðar viðtökur skólafólks, nemenda og kennara. Skólaskrifstofur hafa eftir atvikum lagt keppninni lið í sínum umdæmum en sjálft uppeldisstarfið, ræktun upplestrarins, hefur hvílt á herðum kennara.

Stóra upplestrarkeppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um eflingu tungunnar en er ekki greidd af yfirvöldum né skilgreind opinberlega sem hluti af verksviði skólayfirvalda. Vorið 2004 voru stofnuð formleg samtök, Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, sem hafa séð um framkvæmd keppninnar frá þeim tíma. Upplestrarkeppnin er ekki keppni í venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni sem um leið er stuðningur við markmið aðalnámskrár í móðurmálskennslu. Höfuðáhersla er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af og læri að meta vandaðan upplestur.

Lokahátíðin á Vesturlandi fór fram í Hjálmakletti 23. mars. Nemendur úr Grunnskólanum í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar, Auðarskóla, Laugagerðisskóla og Heiðarskóla leiddu þar saman hesta sína. Bjartur Daði Einarsson kynnti skáld keppninnar, Emma Thorlacius lék á harmonikku og Elísabet Ýr Eiríksdóttir og Isobel Líf Diaz á píanó. Nemendur úr Grunnskóla Borgarfjarðar, þau Ágúst Páll Þorsteinsson og Elísabet Egilsdóttir hrepptu fyrsta og annað sætið og þriðja sætið hlaut Vilhjálmur Ingi Ríkharðsson, Grunnskólanum í Borgarnesi. Sigurvegararnir hlutu peningaverðlaun en allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjal fyrir góðan lestur.

Dómarar voru þau Jón Hjartarson, fulltrúi Radda, og Geir Konráð Theódórsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir af hálfu heimamanna.

Á fyrri myndinni má sjá sigurvegarana og á þeirri seinni Vilhjálm Inga Ríkharðsson úr Grunnskólanum í Borgarnesi ásamt umsjónarkennara sínum Andreu Eðvaldsdóttur og Júlíu Guðjónsdóttur skólastjóra. Umsjón með framkvæmd lokahátíðarinnar að þessu sinni hafði Kristín María Valgarðsdóttir deildarstjóri í Grunnskólanum í Borgarnesi.