Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga. Það felur meðal annars í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið. Markmið með takmörkun skólastarfs er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19. Takmörkun á skólastarfi tekur gildi á miðnætti 16. mars og gildir til miðnættis þann 12. apríl. Yfirvöld munu endurmeta þörf á takmörkun skólastarfs eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf verður fyrir að framlengja gildistímann. Ákvörðunin tekur jafnframt til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs.
Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Mánudagurinn 16. mars verður starfsdagur í leik- og grunnskólum til þess að stjórnendur og starfsmenn fái skipulagt skólahaldið á næstu vikum sem best. Allar upplýsingar varðandi framhaldið munu birtast hér á heimasíðu skólans.