Mötuneytið fer vel af stað

Ritstjórn Fréttir

Nú er komin ágætis reynsla á mötuneyti skólans en þann 1. nóvember s.l. var fyrsta máltíðin elduð í nýju og fullkomnu skólaeldhúsi. Boðið er uppá morgunverð í upphafi dags, hafragraut, morgunkorn og lýsi. Morgunverðurinn er oft sagður mikilvægasta máltíð dagsins og nú skapast í morgunsárið notaleg stund þegar nemendur tínast í salinn og borða grautinn sinn. Í hádeginu er borin fram heit máltíð ásamt ávöxtum og grænmeti. Ávaxtastund er svo daglega um miðjan morgun og er og alltaf jafn vinsæl.

Meiri hluti nemenda borðar í mötuneytinu og óhætt er að segja að almenn ánægja er með tilkomu þess. Nemendur fá nú fjölbreytt og gott fæði í skólanum og eru viðmið Embættis landlæknis um heilsueflandi grunnskóla lögð til grundvallar og unnið samkvæmt handbók fyrir skólamötuneyti. Við í skólanum erum gríðarlega ánægð með þessa viðbót við skólastarfið sem um leið styður við Borgarbyggð sem heilsueflandi samfélag.

Matráður skólans er Snæbjörn Óttarsson og honum til aðstoðar eru Inga Birna Tryggvadóttir og Silja Jónasdóttir.