Lið Grunnskólans í Borgarnesi lenti í 5. sæti í sínum riðli í undankeppni Skólahreysti 2019. Alls kepptu 16 lið í riðlinum. Lið Borgnesinga skipuðu þau Hilmar Elís Hilmarsson og Þórunn Sara Arnarsdóttir úr 10. bekk og Elinóra Ýr Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Ingi Ríkharðsson úr 9. bekk. Varamenn voru Eydís Alma Kristjánsdóttir og Steinar Örn Finnbogason. Að sögn Jóhannesar Magnússonar, þjálfara liðsins, stóðu krakkarnir sig með ágætum og voru skólanum okkar til mikils sóma þó ekki kæmust þeir í úrslit að þessu sinni.
Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins. Hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum sem öll þurfa að vera nemendur í 9. og/eða 10. bekk síns skóla. Keppt er í eftirfarandi keppnisgreinum:
- Upphífingum (strákar)
- Armbeygjum (stelpur)
- Dýfum (strákar)
- Hreystigreip (stelpur)
- Hraðaþraut (strákar og stelpur)
Keppendur skipta á milli sín keppnisgreinum. Annar strákurinn spreytir sig á upphífingum og dýfum meðan hinn keppir í hraðaþrautinni. Hjá stelpunum er hið sama uppi á teningnum: Önnur stúlkan keppir í armbeygjum og hreystigreip, en hin tekur þátt í hraðaþrautinni. Tveir skólar keppa samtímis í hverri þraut fyrir utan hreystigreip, en þar takast á fimm til átta skólar í einu. Í hraðaþrautinni fer stelpan fyrst af stað og þegar hún lýkur hringnum má strákurinn fara af stað í sinn hring. Samanlagður tími þeirra er keppnistími liðsins.
Þar sem mikill fjöldi skóla tekur þátt í keppninni er nauðsynlegt að viðhafa undankeppnir til að ákvarða hvaða skólar keppi í úrslitakeppninni sjálfri í lok keppnistímabilsins. Undankeppnirnar eru 10 talsins og eru þær svæðisbundnar, þ.e. skólar frá sama landssvæði keppa innbyrðis sín á milli. Einn skóli frá hverju landssvæði öðlast þátttökurétt í úrslitunum, en tveir árangurshæstu (ekki endilega stigahæstu) skólarnir af þeim sem enda í 2. sæti í sínum riðli fá svokölluð uppbótasæti í úrslitunum. Heildarfjöldi skóla í úrslitum Skólahreysti er því 12.
Skólahreysti er viðurkennd af og nýtur opinbers stuðnings menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, norrænu ráðherranefndarinnar, Íþrótta & Ólympíusambands Íslands og sveitarfélaga.
