Námskeið í skapandi skrifum

Ritstjórn Fréttir

Menntamálastofnun og Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda (SÍUNG) bjóða um þessar mundir upp á námskeið í skapandi skrifum í skólum á Vesturlandi. Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og teiknari, stýrir námskeiðinu sem er ætlað til að auka áhuga barna á lestri bóka og ritun. Í dag tóku nemendur okkar á miðstigi þátt í námskeiðinu sem fram fór í Hjálmakletti.

Bergrún Íris er höfundur metsölubókarinnar Langelstur í bekknum sem kom út á síðastliðnu ári. Meðal annarra bóka Bergrúnar má nefna Vinur minn, vindurinn og Sjáðu mig sumar. Í tilkynningu frá Menntamálastofnun segir að Bergrún muni taka börnin með sér í ferðalag um ævintýraheima sagnagerðar og ritunar.

Menntamálastofnun hefur áður boðið upp á svipuð námskeið í samstarfi við SÍUNG. Til dæmis var Gunnar Helgason með fræðslu á Austurlandi í mars og Þorgrímur Þráinsson með námskeið í skapandi skrifum fyrir skóla á Vestfjörðum í september síðastliðnum.

Námskeið af þessu tagi og heimsóknir rithöfunda hafa mikil og góð áhrif og starfsfólk skólasafna verður vart við aukinn lestraráhuga og útlán eftir að rithöfundar hafa komið í heimsókn.