Námsmat 2016-2017

Ritstjórn Fréttir

Vetrinum í vetur má lýsa sem ódæmigerðu millibilsástandi hvað varðar námsmat og samstillingu talnakvarða og bókstafakvarða en námsmat með þessum hætti er ekki hugsað til frambúðar. Næsta skólaár, 2017 – 2018 er áformað að innleiða nýja nálgun í námsmati að fullu og gefa einkunnir á bókstafakvarðanum (A-D) í sem flestum námsþáttum, prófum og verkefnum. Breytingin á matskvarða er hluti af stærri hugmynd, áherslubreytingu varðandi nám og námsmat sem kynnt var með Aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013. Rætt er um hæfnimiðað nám og hæfnimiðað námsmat í því samhengi.
Lokaeinkunn 2016-2017 er samsett einkunn úr einkunnum haustannar og vorannar. Við skólalok í júní fá nemendur skriflegt námsmat út frá hæfniviðmiðum námsgreina/námssviða samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sem er samsett einkunn af blöndu af nýju námsmati og því eldra með talnaeinkunn.

Aðalnámskrá setur fram þau hæfniviðmið sem hver einstaklingur skal búa yfir við lok 4., 7. og 10 bekkjar. Í þessum bekkjum komum við til með að gefa í bókstöfum en við lok 10. bekkjar ber skólum skylda til að gefa einkunn í bókstöfum. Í öðrum bekkjum er gefið fyrir með umsögn/táknum. Einnig verður notast við matið lokið / ólokið í valgreinum.

Bókstafirnir þýða eftirfarandi:
• A: Nemandi sýnir framúrskarandi hæfni á því sviði sem viðmið námssviðsins lýsa.
• B+: Nemandinn hefur náð öllum hæfniviðmiðum B og að hluta til þeim viðmiðum sem á við einkunnina A.
• B: Nemandi sýnir góða hæfni á því sviði sem viðmið námssviðsins lýsa.
• C+: Nemandinn hefur náð öllum hæfniviðmiðum C og að hluta til þeim viðmiðum sem á við einkunnina B.
• C: Nemandi sýnir að hann hefur að einhverju leyti, en ekki öllu, náð þeirri hæfni sem viðmið námssviðsins lýsa.
• D: Nemandi hefur ekki náð þeirri hæfni sem matsviðmið námssviðsins lýsa.

Tákn /umsögn

Fjögur tákn eru notuð fyrir umsagnirnar framúrskarandi; hæfni náð; þarfnast þjálfunar; og loks hæfni ekki náð.

Í grunnskólum er nokkur hópur nemenda sem stundar ekki nám sitt að fullu samkvæmt skilgreindum hæfni- og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla, heldur að hluta eða öllu leyti eftir aðlagaðri námskrá og viðmiðum í samræmi við metnar sérþarfir. Við námsmat og vitnisburð skal taka tillit til þessa á þann hátt að merkja skal vitnisburðinn með stjörnu (*) á rafrænu útskriftarskírteini. Þannig fá nemendur A*, B*, C* eða D* í samræmi við hvernig þeir ná einstaklingsbundnum matsviðmiðum sínum. Hafi nemandi formlega fengið undanþágu frá tilteknum námssviðum vegna sérþarfa þá skal það koma fram á útskriftarskírteininu.