Nemendum boðið á dansleikhússýningu

Ritstjórn Fréttir

Dansarinn og danshöfundurinn Sigríður Soffía Níelsdóttir hefur sýnt dansleikhúsið FUBAR víða um land. Í dag býður hún nemendum unglingadeildar grunnskólans á sýningu í Hjálmakletti. Sigga Soffía er fædd í Borgarnesi og hefur lengi haft það á stefnuskránni að setja upp sýningu hér. FUBAR er afar persónulegt verk sem byggir á reynslu höfundar en Sigga var stödd í París 13. nóvember 2015 þegar hryðjuverkaárás leiddi til þess að 130 manns létu lífið. Sigga segir FUBAR vera óð til lífsins. FUBAR er dansleikhusverk þar sem dans, söngur, sögur úr samtímanum, vélmennadans og lifandi hljóðfæraleikur renna saman í eina heild. Verkið er samvinnuverkefni með Jónasi Sen sem samdi tónlist, myndlistamanninum Helga Má og búningar eru úr smiðju tískuhönnuðarins Hildar Yeoman.
Sýningin í Hjálmakletti hefst kl. 13.00.