Nemendur í fyrsta bekk eiga fastan tíma á skólasafninu á mánudagsmorgnum. Í dag beið þeirra óvæntur glaðningur eða bókagjöf frá IBBY á Íslandi. Hver nemandi fékk þá afhent eintak af bókinni Nesti og nýir skór. Um er að ræða úrval texta úr íslenskum barnabókum, þjóðsögur og ævintýri, vísur, kvæði og þulur; allt perlur úr íslenskum barnamenningararfi. Bókin er afar falleg og ríkulega myndskreytt af fjölda þekktra listamanna.
IBBY er skammstöfun á enska heitinu The International Board on Books for Young People en það eru alþjóðleg samtök.
Íslandsdeild IBBY var stofnuð í Reykjavík árið 1985 og hefur hún það að aðalmarkmiði að stuðla á allan hátt að eflingu íslenskra barnabóka.
Krakkarnir voru afar glaðir og þakklátir fyrir þessa góðu gjöf sem vonandi verður nú lesin á mörgum heimilum.

