Nemendur Grunnskólans í Borgarnesi hlaupa norræna skólahlaupið þann 17. október. Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur til þess að æfa hlaup og auka með því útiveru og hreyfingu og að skýra nauðsyn þess að hreyfa sig og stuðla þannig að betri heilsu.
Nemendur geta valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, 2.5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fá þátttakendur og skólar viðurkenningarskjöl. Mjólkursamsalan, MS, hefur frá upphafi styrkt útgáfu viðurkenningarskjala og samstarfsaðili að þessu verkefni er Íþrótta- og heilsufræðingafélag Íslands.