Nú styttist í jólaútvarpið

Ritstjórn Fréttir

Nú styttist í hið árlega jólaútvarp Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi, Útvarp Óðal 101,3, sem  verður sent út frá Óðali vikuna 7.– 11. desember n.k. Upptökur á þáttum nemenda á yngsta- og miðstigi standa nú yfir og fara fram í nýrri tónmenntastofu skólans. Nemendur á unglingastigi senda sína þætti út í beinni útsendingu.  Útvarp Óðal hefst kl. 10:00 mánudaginn 7. desember með ávarpi útvarpsstjóra sem er Elfa Dögg Magnúsdóttir formaður Nemendafélagsins.

Eins og undanfarin ár verður fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í boði. Fyrri hluta dags verður útvarpað þáttum yngri bekkja grunnskólans en síðan flytja unglingarnir þætti sína í beinni útsendingu sem stendur langt fram á kvöld.  Handritagerð fór  fram í skólanum en jólaútvarpið er skilgreint sem sérstakt verkefni  í íslensku og upplýsingatækni.  Fréttastofan verður á sínum stað og starfi fréttamannanna lýkur eins og undanfarin ár með þættinum „Bæjarmálin í beinni” föstudaginn 11. des. kl. 13.00.  Þá koma góðir gestir í hljóðstofu og ræða það sem efst er á baugi. Jólaútvarpið hóf göngu sína fyrir tæpum þremur áratugum og hefur alla tíð notið mikilla vinsælda meðal bæjarbúa.