Eins og flestir vonandi vita þá erum við hér í Grunnskólanum í Borgarnesi farin af stað með verkefni sem felst í því að leggja í auknum mæli áherslu á hugarró, velferð og vellíðan í daglegu starfi. Þessa fyrstu daga höfum við verið að kynna fyrir nemendum það sem er og verður í boði fyrir þá og fá bekkirnir stutta kynningatíma í litlum hópum. Nemendur fá kynningu á leiðum til að hvíla hugann þannig að hann verði tilbúnari til að vinna enn betur á eftir ásamt því sem einfaldar grunnjógastöður eru prófaðar.
Í hádeginu er slökunarnúvitund í boði fyrir unglingastigið, til að byrja með, og eru nemendur byrjaðir að nýta sér það. Fleiri útfærslur eru í deiglunni svo sem allra flestir hafi tök á því að koma í slökunarrýmið. Þetta rými er staðsett við hliðina á smíðastofunni (þar sem áður var tónmennt) og við vonumst til þess að góð nýting verði á því rými. Við leggjum upp með það að þetta sé fyrir alla, að allir séu velkomnir og hvetjum alla til að prófa hvernig þeim líki.
Námskeið í velferð og vellíðan verður kennt á öllum brautum í unglingadeildinni en að auki geta nemendur á mið- og unglingastigi valið núvitund, djúpöndun, jóga og slökun í vali. Kynning á því vali er í valbæklingnum sem nemendur hafa fengið afhenta. Velferðarnámskeiðið fléttast svo inn í annað skólastarf hjá yngri nemendum þegar líður á skólaárið.
Að auki verða í boði einstaklingstímar þar sem hver nemandi kemur í 5 skipti. Í þeim tímum er áhersla á sjálfseflingu. Sterkar hliðar eru fundnar, rætt hvað skiptir okkur máli og hvað ekki, á hvað við getum haft áhrif og hvað ekki. Farið er yfir leiðir til að auka jákvæðar tilfinningar og vellíðan og litla styrkleikabókin unnin í sameiningu. Markmiðið er að auka sjálfstyrkingu, þrautseigju, einbeitingu og/eða draga úr kvíða. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara barnsins síns ef þeir óska eftir einstaklingstímum en einnig skrá umsjónarkennarar, í samráði við foreldra, nemendur sína. Foreldrar eru upplýstir um viðfangsefni hvers tíma og geta óskað eftir séráherslum.
Verkefnisstjóri er Elín Kristinsdóttir.