Nemendur 5. bekkjar hafa frá því á haustmánuðum unnið að skemmtilegu verkefni þar sem reynir á ýmsa þætti. Um er að ræða verkefni sem unnið er með svokallaðri landnámsaðferð. Aðferðin samþættir margar námsgreinar og eflir samfélagsvitund nemenda. Höfuðviðfangsefni hennar er líf nútímafólks á landi þar sem allt vantar nema landsins gæði. Hver nemandi skapar sitt eigið land og tekur afstöðu til þess hvernig þjóðin í landinu kemur sér upp mannsæmandi lífsskilyrðum, hvað það kostar hana, hvernig hún velur og hafnar eftir aðstæðum og efnahag, hvernig hún bregst við óæskilegum áhrifum og freistingum og hvaða gildi hún hefur í hávegum.
Nemendur gáfu löndum sínum nöfn og tungumál og bjuggu til þjóðfána. Fjölmörg lönd litu dagsins ljós. Sem dæmi má nefna Katladika; þar býr tæplega ein milljón manna sem tala tungumálið dúska. Í þjóðfána landsins má sjá regnboga en hann táknar allt mismunandi fólkið sem býr í landinu og að allir eru velkomnir til Katladika.
Nemendur tóku afstöðu til hluta á borð við samgöngur, sorphirðu, menntamál, fiskveiðar, sjálfbærni o.fl., o.fl. Áberandi var hversu mikla áherslu þeir lögðu á góða samvinnu og samskipti milli hinna ólíku þjóða.
Upplýsingatækni kom, auk margvíslegrar annarrar færni, við sögu í verkefninu. Nemendur unnu kynningarbæklinga um löndin sín í tölvum, skrifuðu texta og myndskreyttu.
Landnámsverkefninu lauk síðan með bekkjarkvöldi þar sem hver nemandi kynnti landið sitt fyrir foreldrum og öðrum gestum. Kynningin var mjög skemmtileg og endaði á því að viðstaddir gæddu sér á kræsingum af hlaðborði.
Umsjónarkennarar 5. bekkjar eru Halldóra Rósa Björnsdóttir og Þórunn Kjartansdóttir.