Vorferð 6. bekkjar í Grunnskólanum í Borgarnesi var í uppsveitir Borgarfjarðar. Fyrst lá leiðin til Varmalands þar sem farið var í góða gönguferð og síðan léku krakkarnir sér dágóða stund í skóginum. Þar var hefðbundin ávaxta- og nestisstund áður en haldið var áfram. Deildartunguhver var skoðaður áður en farið var í Reykholt. Þar fékk hópurinn höfðinglegar móttökur. Móttökustjóri Gestastofu fór yfir fasta sýningu staðarins og síðan gekk hópurinn til kirkju þar sem séra Geir Waage hélt skemmtilega tölu um sögu þjóðarinnar í alþjóðlegu samhengi, menningartengsl á miðöldum og fleira fróðlegt. Náði hann mjög vel til krakkanna og óhætt er að segja að nemendur hafi haft gagn, og ekki síður gaman, af fyrirlestri séra Geirs. Hann fór síðan með hópinn um Reykholtsstað og sagði frá ýmsu áhugaverðu.
Eftir að formlegri dagskrá á Reykholtsstað lauk var sest í skógarlund á staðnum og hádegisnesti snætt.
Nemendur okkar voru svo sannarlega sjálfum sér, foreldrum sínum og skólanum til sóma. Krakkarnir voru kurteisir, áhugasamir og glaðir í bragði alla ferðina.
Umsjónarkennarar 6. bekkjar eru Guðmundur Eyþórsson og Gunnar Straumland.