Bræðurnir Ævar Þór, betur þekktur sem Ævar vísindamaður, og Guðni Líndal Benediktssynir komu í skólann í dag og lásu úr nýútkomnum bókum sínum. Ævar las fyrir nemendur 4. – 7. bekkjar úr bókinni Þitt eigið ævintýri. Bókin er sú fjórða í geysivinsælum bókaflokki sem komið hefur út á undanförnum árum og er nemendum að góðu kunnur. Fyrri bækurnar heita Þín eigin goðsaga, Þín eigin þjóðsaga og Þín eigin hrollvekja. Guðni Líndal las fyrir nemendur 1. – 3. bekkjar. Nýja bókin hans heitir því kostulega nafni Stelpan sem ákvað að flytja húsið sitt upp á fjall (og þurfti að berjast við vélkjúklinga og sjóræningjaeðlur) og höfðar til yngri lesenda. Áður hafa komið út eftir Guðna bækurnar Leitin að Blóðey og Leyndardómur erfingjans. Nemendur hlustuðu af athygli og voru ánægðir með að fá svona góða heimsókn.
Þess má geta að fyrr í mánuðinum kom nýr höfundur, Hjalti Halldórsson, og las fyrir nemendur úr sinni fyrstu bók. Sú heitir Af hverju ég? og gerist í Borgarnesi. Söguhetjan heitir Egill Grímsson og gengur í 6. bekk grunnskólans hér í bæ. Sagan kallast á við Egils sögu og í kjölfar lestrarins sköpuðust líflegar umræður milli höfundar og nemenda sem höfðu gaman af þessari tengingu við Egil gamla á Borg og ævintýri hans. Heimsóknir af þessu tagi eru ómetanlegar hvað lestraráhuga varðar og bækurnar sem hér hafa verið nefndar staldra sjaldan lengi við í hillum bókasafnsins.