Hjalti Halldórsson, kennari og rithöfundur, heimsótti skólann í dag, spjallaði við nemendur og las úr nýútkominni bók sinni Draumnum. Rúmlega 100 nemendur úr 5., 6. og 7. bekkjum söfnuðust saman í Gamla mjólkursamlaginu. Krakkarnir hlustuðu af athygli og eftir upplesturinn gafst góður tími til að spyrja höfundinn spurninga um ritstörfin, áhugamálin og reyndar allt milli himins og jarðar. Fyrsta bók Hjalta, Af hverju ég?, kom út á síðasta ári. Sögusvið þeirrar bókar er Borgarnes og söguhetjan Egill er nemandi í 6. bekk grunnskólans. Egill hefur einstakt lag á að koma sér í vandræði og minnir að ýmsu leyti á nafna sinn frá Borg. Af hverju ég? hefur notið mikilla vinsælda á skólasafninu og er um þessar mundir hluti af námsefni 6. bekkjar. Það voru áhugasamir lesendur sem hlustuðu á Hjalta lesa úr nýju bókinni í morgun og glöggur hlustandi áttaði sig á því að líklega á söguhetja Draumsins eitthvað skylt við fornkappann Gretti Ásmundarson.