Sagan mótar bæinn – verkefni með tékkneskum gestakennurum

Ritstjórn Fréttir

Fimm kennarar frá Základní škola Karla Jerábka dvöldu í Borgarnesi dagana 14. – 18. mars sl.  Tilefnið var samstarf Grunnskólans í Borgarnesi og grunnskólans og ZKJ sem hófst síðastliðið haust með heimsókn kennara úr grunnskólanum í Borgarnesi til Tékklands.  Hér var unnið að menningar- og útikennslutengdu verkefni með nemendum 9.bekkjar. Útikennsluþáttum verkefnisins, sem og ferðum varð þó að breyta nokkuð vegna veðurs, en það var upplifun fyrir gestina að fyrsta skóladaginn var ofsaveður, rafmagnslaust um tíma og félagar úr björgunarsveitinni Brák mættu til að aðstoða nemendur við að komast heim.  

Gestakennararnir tóku virkan þátt í kennslu, sem öll fór fram á ensku. Unnið var að verkefninu “The saga shapes the town” sem er menningartengt verkefni með útikennsluþema. Grunnurinn er áhrifin sem Egils saga Skalla-Grímssonar hefur haft á mótun Borgarness, út frá staðháttum og götuheitum. Nemendur og kennarar leiðsögðu tékknesku kennurum um þekkt kennileiti í Borgarnesi, sem tengjast Egils sögu.  Verkefnin voru fjölbreytt og áttu það sameiginlegt að vera metnaðarfull og vel unnin.  Að auki heimsóttu Tékkarnir Reykholt, fengu þar fræðslu um Snorra Sturluson og söguritun fyrri alda og söguhringnum var lokað er Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur tók á móti þeim á Borg.  Þá tók Hlöðver Ingi Gunnarsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs,  á móti hópnum í Landnámssetrinu og kynnti sveitarfélagið og fræðslumál almennt frá leikskóla til háskóla.  

Tékkarnir voru ánægðir með starfið og allan aðbúnað nemenda og starfsfólks í Grunnskólanum í Borgarnesi. Þeir lýstu sérstakri hrifningu sinni á list- og verkgreinakennslunni þar sem stelpur og strákar fá hagnýtan undirbúning fyrir lífið og jafnrétti ríkir varðandi kennslugreinarnar. Einnig nefndu þeir teymiskennsluna, samstarf við foreldra, ekki síst varðandi heimalestur, frjálslega framkomu nemenda og góða enskukunnáttu sem og velferðarkennsluna og morgunjógað hjá Elínu Matthildi Kristinsdóttur.

Hulda Hrönn Sigurðardóttir hefur umsjón með verkefninu af hálfu Grunnskólans í Borgarnesi. Hún segir samstarf sem þetta víkka sjóndeildarhringinn og gefa daglega starfinu litríkari blæ. Það að fá kynningu á skólastarfi öðru landi, kynnast fagfólki sem hefur annan bakgrunn og kynnast starfsaðstæðum þess sé  áhrifaríkt til starfsþróunar. Hulda Hrönn hyggst sækja um framhald þessa samstarfs en það er hluti af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál.