Samstarfssamningur félagsmálaráðuneytis, UNICEF og Borgarbyggðar

Ritstjórn Fréttir

Samstarfssamningur félagsmálaráðuneytis, UNICEF og Borgarbyggðar verður undirritaður þriðjudaginn 3 mars kl.15:30 í sal Grunnskólans í Borgarnesi. Félagsmálaráðuneyti, UNICEF og Borgarbyggð ganga nú til samstarfs um framkvæmd verkefnisins barnvæn sveitarfélög. Verkefnið felst í því að Borgarbyggð innleiðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga sem UNICEF og umboðsmaður barna hafa þróað. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Borgarbyggðar með stuðningi Félagsmálaráðuneytis og UNICEF í formi fræðslu og ráðgjafar. Sveitarfélag sem innleiðir Barnasáttmálann samþykkir að nota hann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur sáttmálans séu leiðarstef í starfsemi þess. Við innleiðinguna rýna starfsmenn og kjörnir fulltrúar ákvarðanatökuferli sveitarfélagsins með hliðsjón af Barnasáttmálanum, gera aðgerðaáætlun og hrinda í framkvæmd viðeigandi breytingum. Sáttmálinn er nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna. Fyrirhugað er að innleiðingarferlið standi yfir í tvö ár, frá febrúar 2020-2022. Að loknum þeim tíma getur Borgarbyggð hlotið, að uppfylltum forsendum verkefnisins, viðurkenningu frá UNICEF fyrir að vera barnvænt sveitarfélag. Viðurkenninguna þarf að endurnýja á fimm ára fresti og er í höndum UNICEF á Íslandi. Við úttekt þarf sveitarfélagið að sýna fram á að vinnan hafi haldið áfram og að sveitarfélagið hafi uppfært aðgerðaáætlun sína fyrir innleiðingu Barnasáttmálans árlega samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga.