Samtök um samskipti og skólamál gefa GB góða umsögn

Ritstjórn Fréttir

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar fyrir skömmu var til kynningar bréf Erindis – samtaka um samskipti og skólamál en samtökin hafa komið að starfi grunnskólans og veitt ráðgjöf vegna tiltekinna mála. Erindi eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða og hafa það hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag barna og ungmenna á öllum skólastigum. Í bréfinu kemur fram mikil ánægja með kynni samtakanna af hinu faglega starfi sem unnið er í Grunnskólanum í Borgarnesi. „Viðmót kennara gagnvart nemendum og áhugi skólastjórnenda fyrir umbótum í skólastarfi vakti sérstakan áhuga,“ segir um efni bréfsins. Byggðarráð þakkaði bréf Erindis og lýsti ánægju sinni með það viðhorf sem kemur fram gagnvart starfinu sem fram fer í Grunnskólanum í Borgarnesi og góðum anda á vinnustaðnum.