Skipulag næstu viku

Ritstjórn Fréttir

Júlía Guðjónsdóttir skólastjóri sendi í dag bréf til foreldra og forráðamanna þar sem hún fer yfir skipulag næstu viku sem jafnframt verður síðasta kennsluvika fyrir páskafrí. Í bréfinu kemur fram að skólastarfið hafi gengið vel þær tvær vikur sem af eru samkomubanni. Þunginn í kennslunni hefur færst úr skólastofunni og fer hún nú  fram með ýmsum hætti s.s. í gegnum Mentor, Teams, tölvupóst og síma. Sumir kennarar sinna kennslunni alfarið heiman frá sér meðan aðrir sinna nemendum í skólanum sem og í fjarkennslu.

Júlía nefnir að allt hafi gengið vel miðað við aðstæður og að börn og foreldrar hafi sýnt mjög mikla aðlögunarhæfni. Ástandið reyni vissulega á alla en kennarar segi samstarfið við heimilin ganga vel  og að velflestir nemendur sinni námi sínu reglulega heima. Fram kemur að bæði nemendum og starfsfólki sem koma í skólann þessa dagana fari fækkandi af ýmsum ástæðum. Við því verður brugðist með því  að breyta fyrirkomulaginu og sameina hópa sem eru í sama árgangi, bjóði fjöldinn upp á það. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag næstu viku verði með þeim hætti að 1.-4. bekkir mæti daglega í skólann alla vikuna, 5. og 6. bekkir haldi áfram á sömu braut og að undanförnu, verði í A og B hópum og mæti annan hvern dag og að 7.-10. bekkir mæti mánudag, miðvikudag og föstudag í skólann en vinni heima þriðjudag og fimmtudag.

Loks minnir Júlía foreldra og forráðamenn af hafa samband við kennara barnanna ef eitthvað er óljóst og þakkar fyrir góða samvinnu.