Skólahreysti

Ritstjórn Fréttir

Þann 14. mars mætast grunnskólar af Vesturlandi og Vestfjörðum í skólahreysti og fer keppnin fram í TM höllinni í Garðabæ. Skólahreysti er, eins og kunnugt er, liðakeppni milli grunnskóla landsins. Hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum úr 9. og/eða 10. bekk. Tveir varamenn, strákur og stelpa, fylgja hverju liði.
Keppnisgreinar eru upphífingar (strákar), armbeygjur (stelpur), dýfur (strákar), hreystigreip (stelpur) og hraðaþraut (stelpur og strákar). Keppendur skipta á milli sín keppnisgreinum. Annar strákurinn spreytir sig á upphífingum og dýfum og hinn tekur hraðaþraut. Eins er með stelpurnar, önnur tekur armbeygjur og hreystigreip og hin hraðaþraut. Tveir skólar keppa samtímis í þrautum nema hreystigreip en þar takast á fimm til átta skólar í einu. Í hraðaþraut fer stelpan fyrst af stað og þegar hún lýkur hringnum má strákurinn fara af stað. Samanlagður tími þeirra gildir.
Keppendur úr Grunnskólanum í Borgarnesi eru þau Arna Jara Jökulsdóttir og Inga Rósa Jónsdóttir og Ármann Hugi Ólafsson og Davíð Freyr Bjarnason. Varamenn eru Birta Sif Gunnlaugsdóttir og Jón Steinar Unnsteinsson. Greint verður frá árangri keppenda síðar.
Á myndinni má sjá stráka úr 7. bekk tilbúna að hvetja sitt fólk.