Skólapúlsinn – niðurstöður úr foreldrakönnun

Ritstjórn Fréttir

Foreldrakönnun Skólapúlsins er gerð í febrúar ár hvert og er fyrir foreldra barna á öllum aldursstigum grunnskólans. Búið er til 120 nemenda líkindaúrtak. Niðurstöður á yngsta, mið- og unglingastigi eru birtar með samanburði við landsmeðaltal í byrjun mars svo lengi sem 80% svarhlutfalli hefur verið náð. Foreldrakönnunin mælir 41 þátt í sex flokkum og eru spurningar 70 talsins. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, pólsku og ensku.

Flokkarnir sem um ræðir eru eftirfarandi: Nám og kennsla; velferð nemenda; aðstaða og þjónusta; foreldrasamstarf; heimastuðningur og loks opnar spurningar varðandi kosti skólans, hvað megi betur fara og heimasíðu.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru sem hér greinir:

Nám og kennsla: Ánægja foreldra með nám og kennslu í skólanum hefur aukist frá því 2019 en er þó rétt undir landsmeðaltali. Tæplega 90% foreldra eru ánægðir með stjórnun skólans og námskröfur.

Velferð nemenda: Ánægja foreldra með samskipti starfsfólks við nemendur hefur aukist en er þó rétt innan við landsmeðaltal. Yfir 90% svarenda telja að líðan nemenda í skólanum sé almennt góð og að skólinn mæti þörfum þeirra vel. Ánægja foreldra með úrvinnslu eineltismála í skólanum er marktækt meiri en landsmeðaltalið og sama máli gegnir með eineltisáætlun skólans. Foreldrar telja að einelti eigi sér helst stað í frímínútum og íþróttatímum.

Aðstaða og þjónusta: Skólinn er yfir landsmeðaltali hvað varðar aðstöðu í skólanum en aðeins undir því varðandi tómstundaþjónustu. Fleiri nemendur nýta tómstundaþjónustuna hér en á landsvísu. Ánægja með skólamötuneyti er almenn og yfir meðaltali.

Foreldrasamstarf: Svörin endurspegla landsmeðaltal varðandi áhrif foreldra á ákvarðanir um nemendur og að skoðanir þeirra og ábendingar séu teknar til greina. Um 65% foreldra segjast upplýstir um stefnu skólans og námskrá og um 80% eru ánægðir með heimasíðu skólans.

Heimastuðningur: Foreldrar eru við landsmeðaltal hvað varðar virkni í námi barnanna. Um 63% foreldra búast við að börn þeirra fari í háskólanám en það er marktækt undir landsmeðaltali. Um 22% foreldra telja að börnin fari í iðnám og er sú niðurstaða marktækt yfir landsmeðaltali. 98% svarenda voru ánægðir með viðbrögð skólans við Covid og er það yfir landsmeðaltali.

Opin svör: Í þessum flokki voru foreldrar spurðir um hvað þeim þætti gott við skólann; hvað mætti betur fara og loks hvort þeir vildu gera athugasemdir við heimasíðu skólans.

Skýrsluna má finna í heild með því að smella hér: Skólapúlsinn – foreldrakönnun 2021