Skólasetning

Ritstjórn Fréttir

Grunnskólinn í Borgarnesi var settur í íþróttahúsinu þann 26. ágúst, nokkru seinna en ráðgert hafði verið.

Júlía Guðjónsdóttir, skólastjóri, bauð nemendur og starfsfólk velkomin til starfa og greindi frá helstu atriðum skólastarfsins.

Framkvæmdir við skólann eru aðeins á eftir áætlun og mun skólastarfið fyrstu vikurnar á starfsárinu mótast nokkuð af því.  

Fyrsti áfangi framkvæmdanna inniheldur nýjan sal, kennslurými fyrir yngsta stigið og list- og verkgreinastofur og er gert ráð fyrir að hann verði að fullu kominn í notkun eftir u.þ.b. 5 vikur. Salurinn er tilbúinn og geta nemendur matast þar, þó er eldhúsið ekki fullfrágengið og munu Kræsingar því sjá um matinn fyrst um sinn.

Unglingastigið verður í Menntaskóla Borgarfjarðar tímabundið eða til 1. okóber. Miðstigið verður á neðri hæð skólans en yngsta stigið sem átti að vera í nýja rýminu verður á því svæði sem unglingarnir hafa verið á. 

Í dag eru 302 nemendur skráðir í skólann og þar af hefja 23 nemendur nám í 1. bekk. Starfsmenn skólans eru 61 talsins.

Ekki verða gerðar breytingar á ytra skipulagi skólastarfsins frá því sem var á síðasta skólaári þó alltaf megi gera ráð fyrir einhverjum áherslubreytingum.

Valið verður með sama sniði og síðasta skólaár og haldið verður áfram með smiðjuhelgar á unglingastigi..

Starfið í skólanum tekur mið af Uppbyggingarstefnunni sem miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn nemenda, þjálfa þá í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum.

Stefnt er að því flagga Grænfánanum í 7. sinn í vetur, lítið vantar til þess að markmiðin náist og tekur umhverfisnefnd skólans nú upp þráðinn þar sem frá var horfið síðasta vor.

Grunnskólinn í Borgarnesi er heilsueflandi grunnskóli tekur þátt í ýmsum viðburðum þar að lútandi. Búbblan verður starfrækt áfram en þar fer fram svokölluð velferðarkennsla. Þar er lögð áhersla á slökun, hugleiðslu og hvíld. Starfið í Búbblunni hefur vakið mikla athygli meðal skólafólks og hefur verið kynnt víða.

Skólinn vinnur að þróunarverkefni ásamt Grunnskóla Borgarfjarðar um „bættari skólabrag og betri bekkjaranda“. Nemendur 7. og 8. bekkjar eru þátttakendur í Erasmus verkefni sem ber heitið Enjoyable math.

Innan skamms verður svo opinn dagur í skólanum þar sem íbúum er boðið að skoða nýbygginguna og jafnframt er áætlað að efna til samkeppni um nafn á skólann.

Loks kynnti Kristín Einarsdóttir, aðstoðarskólastjóri starfsfólk og bauð nýliða velkomna í hópinn.